Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að Karl þriðji verður krýndur á morgun. Þessar dásamlegu ensku skonsur sóma sér vel í hvaða konunglega teboði sem er.
Best er að gera skonsurnar samdægurs þar sem þær eru einfaldlega bestar nýbakaðar.
Innihald
2 bollar hveiti
2/3 bollar mjólk
1/4 bollar sykur
85 gr. ósaltað smjör
4 tsk. lyftiduft
1/2 tsk salt
1 stórt egg
Aðferð
Stilltu ofninn á 210 gr.
Blandaðu hveiti, lyftidufti, sykri og salti saman í skál.
Skerðu smjörið í litla bita og myldu út í deigið. Best er að nota hendurnar og nudda hveitið og smjörið saman, þar til þetta líkist kexmylsnu.
Blandaðu egginu og mjólkinni saman í aðra skál. Gott að hræra það létt saman.
Helltu blöndunni út í þurrblönduna en geymdu ca. 2 msk. af eggjablöndunni til að smyrja yfir skonsurnar. Hrærðu vel saman.
Hnoðaðu deigið létt saman á hveitistráðri borðplötu. Ekki hnoða of mikið.
Flettu deigið svo út í ca. 4 cm þykkt. Stingdu svo út skonsurnar, annað hvort með glasi eða skonsujárni.
Smurðu eggjablöndunni yfir og bakaðu í ca. 13-15 mín. eða þar til þær eru gullnar og hafa ca. tvöfaldast í hæð.
Samkvæmt hefðinni eru skonsurnar bornar fram með rjóma sem kallast “clotted” rjómi og sultu. Við látum samt smjör (hugsanlega þeytt smjör), ost og sultu duga. Enda erum við svo sem ekki aðalskonur heldur sjómannsdætur að vestan.
Njótið! Og lengi lifi Karl þriðji 🙂